fimmtudagur, 1. nóvember 2007

Ásgeir skrifar

Jæja, ég lét tilleiðast að skeiða aftur fram á ritvöllinn, afsaka fyrirfram allar dönskuslettur ef þær lauma sér með. Danskan er náttúrulega farin að nálgast það að vera móðurmál manns eftir svo langa dvöl í Kaupmannahöfn.

Þegar þetta er ritað erum við Brynjar nýkomnir til Uppsala eftir ævintýralega för okkar tveggja sem hófst á miðnætti í gær þegar Brynjar bankaði upp á hjá mér og við hófum að vinna að því marki að klára kassa af bjór áður en við kæmumst til Stokkhólms. Fyrsta lestin átti að leggja af stað til Malmö kl. 4:03 (nei, ekki 16:03) og eftir tæpt þriggja sumbl tókum við pjönkur okkar, afganginn af bjórkassanum og héldum út á lestarstöð. Þó gátum við ekki látið hjá liggja að kýla vömbina og gerðum stutt stopp á Burger King við enda Striksins. Vopnaðir Whooper og öli vænu settumst við svo niður á bekk á Hovedbanegården rétt fyrir fjögur og gengum á birgðarnar. Sífellt grynnkaði á kassanum, sérstaklega með vinnu okkar í lestinni til Malmö og á lestarstöðinni þar og þegar klukkan sló fimm og Svíarnir voru byrjaðir að háma í sig banana og rúnstykki sátum við Brynjar enn fastir við okkar keip og uppskárum nokkur skrítin augntillit fyrir vikið. Þegar klukkan var orðin hálfsex ákváðum við að opna síðasta bjórinn og að honum drukknum lögðumst við drukknir til hvílu rétt fyrir sex að nóttu til í sænskri lest í miðjum sænskum óbyggðum. Lýkur hér með fyrsta kafla ferðasögu Uppsalaferðalanga en verða án efa skrifaðir fleiri kaflar áður en yfir lýkur.

Mynda-gestabók